|
:: laugardagur, febrúar 26, 2005 ::
Bless... Ég er hættur að blogga. Ég ákvað að hætta á toppnum, í stað þess að veslast smám saman upp.
:: Hjörleifur Pálsson 1:00 f.h. [+] ::
...
:: þriðjudagur, febrúar 01, 2005 ::
Mömmu...
er óskað innilega til hamingju með afmælið. Raunar var ég þegar búinn að óska henni til hamingju í eigin persónu, en ekki sakar að gera það á netinu líka. Í tilefni dagsins var boðið til hátíðarkvöldverðar í Hæðarbyggðinni. Ekki skemmdi fyrir að gestum var einnig boðið upp á að horfa á knattspyrnuleik þar sem Rauðu djöflarnir og asssenal öttu kappi, en leikurinn reyndist hin mesta skemmtan. Hátíðarhöldum er þó hvergi nærri lokið og á laugardaginn verður botninn sleginn í þau með kökupartíi. Þetta minnir á fornar sögur þar sem alvöru afmælisveislur standa ávallt í nokkra daga. Ekki slæmur siður það.
:: Hjörleifur Pálsson 10:37 e.h. [+] ::
...
:: þriðjudagur, janúar 25, 2005 ::
Átjánda endurkoma...
Hleypidómanna er nú orðin að staðreynd. Raunar hafa góðar ástæður legið að baki blaðursleysi undanfarinna vikna. Undirritaður hefur einfaldlega ekki nennt þessu. En gífurleg andagift hellist nú allt í einu yfir undirritaðann þannig að hann getur ekki látið lyklaborðið í friði. Eins og Múhameð Alí forðum daga, geta Hleypidómarnir hangið ansi lengi í köðlunum án þess að fara niður í strigann. En nú er komið fram í 8. lotu og spurning um að leyfa köðlunum að hvíla sig aðeins.
Svo bregðast krosstré...
sem önnur tré. Það er orðið æði dapurlegt ástand í blaðurheimum eftir að Kötturinn hætti að berja lyklaborðið. Vonandi er þetta þó aðeins undirbúningur fyrir endurkomu ársins í blaðurheimum. Undirritaður er allavega ennþá í afneitun, og getur ekki ímyndað sér blaðurheima án litla bróður.
Árið 2005 byrjar...
einstaklega vel hjá undirrituðum. Fyrr í mánuðinum var haldið í víking suður í álfur. Einkar ánægjuleg för það. Árið 2005 verður gott ár, en svo segir undirrituðum hugur.
Þegar þetta er ritað...
er hálfleikur í landsleik Íslendinga og Slóvena suður í Túnis. Þrátt fyrir að vera ekki landsins mesti aðdáandi handknattleiksíþróttarinnar lét undirritaður sig hafa það að horfa á fyrri hálfleikinn, þótt enn eigi eftir að koma í ljós hvort hann hafi úthald fyrir þann síðari. Eitt er það orðatiltæki sem íþróttafréttamennirnir nota stíft, en Hleypidómarnir hafa aldrei skilið, en það er þegar menn "stimpla sig inn". Af lýsingunum má skilja sem svo að því fylgi einhver ógurleg ánægjutilfinning að stimpla sig inn. Nú hefur undirritaður unnið á vinnustað þar sem stimpilklukka var til staðar, en hann minnist þess aldrei að hafa fengið einhvers lags fullnægingu á morgnana þegar hann stakk kortinu sínu ofan í apparatið. Honum þótti þvert á móti mun ánægjulegra að stimpla sig út síðar um daginn.
Að framansögðu...
er líklega best að stimpla sig út að svo stöddu.
:: Hjörleifur Pálsson 8:05 e.h. [+] ::
...
:: sunnudagur, desember 26, 2004 ::
Gleðileg jól!
Vinum og vandamönnum nær og fjær er óskað gleðilegra jóla. Síðustu dagar hafa verið einkar ljúfir og notalegir. Eins og alltaf var aðfangadagskvöldinu eytt í Hæðarbyggðinni. Kalkúnninn og ísinn hjá mömmu klikkaði ekki frekar en fyrri daginn, alltaf jafn mikil schnilld! Eins og svo oft áður voru þetta bókajól hjá undirrituðum, og það hefur bæst nokkuð í bókastaflann sem eftir á að lesa, sem er bara hið besta mál. Í gær var svo deginum eytt á Daltúnssetrinu. Húsið var vígt af guðsmanninum Geir Waage og á eftir var ráðist á krásir sem voru að sjálfsögðu útbúnar af móður undirritaðs, og gekk undirritaður ekki svangur frá borði frekar en daginn áður. Það er verst hvað jólafríið er stutt í ár. Undirritaður væri alveg til í að taka smá jólatjill í nokkra daga í viðbót. Er ekki hægt að koma því inn í einhverja kjarasamninga að aðfangadagur sé alltaf á miðvikudegi? Er ekki hægt að skilgreina það sem félagsleg mannréttindi?
:: Hjörleifur Pálsson 1:29 e.h. [+] ::
...
:: þriðjudagur, desember 14, 2004 ::
Aðdáendur Hleypidómanna...
geta nú andað léttar. Hleypidómarnir eru aftur snúnir, viðskotaverri en nokkru sinni áður. Eftir harða baráttu við tölvu sína hefur undirritaður loks haft fullnaðarsigur. Ekkert minna dugði til en að setja farganið upp á nýjan leik, auk þess sem fjárfest var í meira minni, nýjum hörðum disk, prentara og skanna í einu og sama tækinu, og nýrri ADSL græju. Allt er nú komið í fullan gang og tölvan eins og ný eftir þetta mikla meikóver. Vonandi mun þetta tækjadrasl nú hafa vit á því að fokka ekki meira í undirrituðum í framtíðinni.
:: Hjörleifur Pálsson 9:01 e.h. [+] ::
...
:: miðvikudagur, desember 01, 2004 ::
Bloggun hefur verið...
nokkuð áfátt hjá undirrituðum upp á síðkastið. Til að gera langa sögu stutta, þá hefur undirritaður átt nokkuð annríkt, en aðalskýringarinnar er að leita í stríði sem hann hefur staðið í við tölvuna sína. Þrátt fyrir ungan aldur virðist tölvan vera á síðustu dropunum, og er af einhverjum ástæðum komin í algjört hass. Hún frýs núorðið á hálftíma fresti að meðaltali (þetta eru ekki ýkjur). Ákveðna hluti er þar að auki ekki lengur hægt að framkvæma án þess að tölvuræksnið frjósi á sekúndunni. Eitt af því er að horfa á sjónvarpið, og getur undirritaður því ekki lengur horft á knattspyrnuleiki með afruglunarforritinu sínu góða. Ef til vill standa Norðurljós á bak við málið? Það er ekki gott að segja. Vonandi verður þó hægt að bæta eitthvað úr þessu fljótlega svo að lesendur Hleypidómanna þurfi ekki að líða frekari kvalir vegna bloggleysis.
:: Hjörleifur Pálsson 11:34 e.h. [+] ::
...
:: föstudagur, nóvember 19, 2004 ::
Skuldir í dag, skattar á morgun...
hefur lengi verið slagorð Sjálfstæðismanna í Reykjavík. Líklega væri við hæfi að uppfæra það í skuldir í gær, skattar í dag, eftir nýjasta útspil err-listans. Fyrir þá Reykvíkinga sem halda að þetta geti ekki versnað fyrst að útsvarið í gettóinu er komið upp í löglegt hámark, þá skulið þið hugsa ykkur tvisvar um! Örvæntið ekki, err-listinn mun alveg pottþétt finna nýjar leiðir til að skattpína ykkur, rétt eins og þegar holræsaskatturinn var lagður á hér um árið. En hei, lítið á björtu hliðarnar, þið munið örugglega fá stærri flugeldasýningu en nokkru sinni áður á næstu menningarnótt! Og þá verður nátturlega allt í gúddi aftur, er það ekki?
Tímasetning skattahækkananna...
hjá sósíalistunum er annars vel útpæld. Ríkisstjórnin er í þann mund að lækka tekjuskattinn og afnema eignaskattinn, þannig að vonandi mun pöpullinn ekkert taka allt of mikið eftir því þótt útsvarið og fasteignagjöldin hækki. Svo vill líka svo heppilega til að verið er að hækka laun grunnskólakennara, þannig að hægt er að kenna þeim um allt. Það hljómar svo miklu betur heldur en að tala um margra tuga milljarða skuldahala. Árni Þór gat reyndar ekki annað en viðurkennt að það þyrfti nú líka að fara að greiða niður skuldirnar, en það var nú samt bara eitthvað aukaatriði.
Ekki heyrist mikið...
í hagfræðisnillingnum Don Alfredo um þessar mundir. Undirrituðum varð sérstaklega hugsað til hans þegar í fréttum nú kvöld var sagt frá því að þessi nóvembermánuður væri sá kaldasti í meira en heila öld. Síðast þegar að það hlýnaði í veðri fannst Doninum tilvalið að hækka gjaldskrá orkuveitunnar. Er þá ekki tilvalið að lækka gjaldið aftur þegar það kólnar í veðri? Eða er kannski nú þegar búið að grafa alla peningana sem fengust með síðustu hækkun niður í jörð með ljósleiðarakerfinu? En þar liggja víst allir milljarðarnir sem horfið hafa í hyldýpi Orkuveitunnar samkvæmt skýringum Donsins, sama hvort þeir hurfu í risarækjueldi, Tetra-ævintýri, Línu-neti, eða við einhverja aðra iðju.
Mikið er nú gaman...
að búa í Garðabænum þegar maður horfir upp á ástandið í gettóinu. Annars trúi ég því hreinlega ekki að íbúar gettósins muni kjósa þetta lið yfir sig enn eina ferðina, eftir alla vitleysuna sem er í gangi þarna, og sem hefur sjaldan verið jafn áberandi og núna undanfarið.
:: Hjörleifur Pálsson 7:18 e.h. [+] ::
...
|